Guðmundur, eða Kuggur, hefur að undanförnu haldið nokkrar einkasýningar, þar á meðal á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og verk hans hafa birst í erlendum tímaritum.

Ólík skynjun á tíma
„Það hafa sennilega allir, meðvitað eða ómeðvitað, upplifað tímarof. Hvaða mannsbarn, sem á íslenska grund hefur stigið, hefur ekki staðið úti í ósnortinni náttúru og allt í einu verið gripið þeirri tilfinningu að hér sé tíminn ekki til á þann hátt sem við skiljum hann dagsdaglega?
Fortíð og framtíð eru eitt með núinu og við erum ekki viss um hvenær núið er. Það er tímarof.“
Í listsköpun sinni kallar Guðmundur fram nærri óraunverulegar sýnir með því að nota til dæmis útrunnar filmur, í formati sem hefur ekki verið framleitt í áraraðir, og með því að vinna þær með allskonar efnum. Flest verk hans fjalla um hverfulleika tímans, og eru í senn samtímaverk og tímalaus. Tíminn er því ekki línulaga hjá honum heldur nokkurs konar sjónhverfing sem hann lýsir sem minning um draum eða fortíð í hliðstæðum raunveruleika sem þó aldrei var til.

Náttúra, mannfólk og andlegar hugsanir
Rof er Guðmundi hugleikið en hann veltir fyrir sér tengingu á milli rofsins sem hefur átt sér milli náttúru landsins og mannfólksins sem það byggir á aðra hönd, og svo á hina það rof sem hefur átt sér stað milli áðurnefnds mannfólks og andlegra hugsana.
Þannig segir Guðmundur að myndir af eyðibýlum séu í raun ekki myndir af eyðibýlum, heldur myndir af fólki. Fólki sem er farið og skilur eftir sig spurningar.
„Af hverju yfirgáfu seinustu ábúendur staðinn? Hvernig yfirgáfu þau staðinn - í anda eða í holdi? Getum við, með tímarofi, fundið fyrir nærveru þessara sálna?“