Fótbolti

Sjáðu sigur­­mark Óttars Magnúsar í upp­­bótar­­tíma | Marka­hæstur frá upp­hafi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óttar Magnús fór mikinn í háloftunum sem og á grasinu í nótt.
Óttar Magnús fór mikinn í háloftunum sem og á grasinu í nótt. Twitter@oaklandrootssc

Óttar Magnús Karlsson tryggði Oakland Roots 3-2 sigur á Orange County SC í nótt með frábæru marki úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Staðan var 2-1 Orange County í vil þegar venjulegum leiktíma lauk.

Óttar Magnús er sem stendur á láni hjá Oakland Roots í USL Championship-deildinni í Bandaríkjunum en um er að ræða B-deildina þar í landi. 

Oakland hóf tímabilið heldur illa en hefur verið að rétta úr kútnum og ekki tapað í síðustu fimm leikjum, mörk Óttars Magnúsar hafa hjálpað gríðarlega og hann reyndist aftur hetjan í nótt.

Óttar Magnús hóf leik næturinnar með því að koma sínum mönnum í Okland yfir 1-0 eftir aðeins níu mínútna leik. Gestirnir jöfnuðu úr vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma og staðan 1-1 í hálfleik.

Gestirnir komust 2-1 yfir um miðbik síðari hálfleiks og þannig var staðan allt þangað til venjulegum leiktíma var lokið. Heimamenn jöfnuðu þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og tveimur mínútum síðar fengu þeir aukaspyrnu hægra megin við B-boga vítateigs Orange County.

Óttar Magnús stillti boltanum upp …

… og smurði boltann svona fallega yfir veginn og í bláhornið, algjörlega óverjandi fyrir markvörð gestanna. Annað mark Óttars Magnúsar og þriðja mark Oakland tryggði heimamönnum 3-2 sigur.

Þetta var tíunda mark Óttars Magnúsar á leiktíðinni sem gerir hann að markahæsta leikmanni deildarinnar og markahæsta leikmanni í sögu Oakland Roots ef marka má samfélagsmiðla Oakland-liðsins.

Óttar Magnús og félagar eru sem stendur í 10 sæti með 16 stig í Vesturhluta Championship-deildarinnar. Rio Grande er í 7. sæti deildarinnar – sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni – með aðeins 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×