Fótbolti

Áhorfendamet slegið í Íslendingaslag í uppgjöri toppliðanna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir og stöllur í Brann í toppmálum.
Svava Rós Guðmundsdóttir og stöllur í Brann í toppmálum. brann.no

10.582 áhorfendur sáu Brann leggja Valerenga að velli í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Um er að ræða áhorfendamet í norska kvennaboltanum en leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem liðin voru bæði taplaus í fyrstu ellefu leikjum sínum í deildinni þegar kom að leik dagsins.

Ingibjörg Sigurðardóttir var á sínum stað í vörn Valerenga og Svava Rós Guðmundsdóttir hóf leik hjá heimakonum í Brann. Berglind Björg Þorvaldsdóttir hóf leik á varamannabekk Brann en var skipt inná fyrir Svövu á 56.mínútu.

Leiknum lauk með 1-0 sigri Brann með marki Cecilie Redisch Kvamme snemma leiks.

Fyrsta tap Valerenga á tímabilinu staðreynd og hefur Brann nú átta stiga forystu á toppi deildarinnar en Valerenga á einn leik til góða á Brann.

Á sama tíma var Selma Sól Magnúsdóttir í byrjunarliði Rosenborg sem vann 2-4 sigur á Arna Bjornar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×