Erlent

Enn einn rússneskur herforingi felldur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vladimir Pútín tekur í hendur á herforingjum í tilefni af Sigurdeginum þar sem Rússar minnast sigurs í Seinni heimsstyrjöldinni.
Vladimir Pútín tekur í hendur á herforingjum í tilefni af Sigurdeginum þar sem Rússar minnast sigurs í Seinni heimsstyrjöldinni. MAXIM SHIPENKOV/EPA

Roman Kutuzov, rússneskur undirhershöfðingi, er sagður hafa verið felldur í árás á Donbas sem hann fór fyrir frá Donetsk-héraði. Rússneskir ríkismiðlar greina frá falli herforingjans og úkraínski herinn hefur einnig staðfest fall hans.

Í frétt BBC um málið kemur fram að rússneskir herforingjar hafi í auknum mæli verið neyddir að fremstu víglínu til að keyra innrás Rússa áfram. Þá hafa Rússar staðfest dauða þriggja hátt settra herforingja sinna. 

Mannfall herforingja á reiki

Upplýsingar um fjölda felldra herforingja eru hins vegar nokkuð á reiki. Úkraínumenn halda því fram að þeir hafi drepið tólf herforingja Rússa og fulltrúar leyniþjónusta vestrænna ríkja segja fjölda felldra herforingja að minnsta kosti vera sjö.  

Þá virðast tilkynningar úkraínska hersins um fellda hershöfðingja nokkuð misvísandi. Þrír rússneskir hershöfðingjar sem úkraínumenn sögðust hafa fellt, hafa seinna verið sagðir eða reynst lifandi.

Þeirra á meðal er Vitali Gerasimov, undirhershöfðingi, sem úkraínumenn sögðust hafa fellt í mars en birtist aftur í rússneskum miðlum í maí. Annar hershöfðingi, Magomed Tushaev, hefur birst reglulega í myndböndum á samfélagsmiðlum eftir meintan dauða sinn. Loks er það Andrei Mordvitsjev, sem úkraínumenn sögðust hafa fellt í loftárásum á Kherson-héraði en birtist síðar á fjarfundi með téténskum leiðtogum og BBC í Rússlandi hefur staðfest að er á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×