Rússneski herinn eyðilagði í nótt enn eina brúna sem liggur inn í borgina og hefur verið að gera harða hríð að þeirri síðustu. Brýrnar tengja borgina við aðra úkraínska borg, Lysychansk. Nái Rússar að eyðileggja síðustu brúna mun það gera Úkraínumönnum í Severodonetsk ómögulegt að flýja, eða fá frekari liðsauka, vopn og vistir.
Selenskí sagði í reglulegu næturávarpi sínu að Rússar leggi nú höfuðáherslu á Severodonetsk og etji nú lítt þjálfuðum ungum mönnum út á vígvöllinn. Forsetinn fullyrðir að fyrir júnílok muni rússneski herinn hafa misst fjörutíu þúsund hermenn í stríðinu í Úkraínu, sem sé mesta mannfall Rússa í stríði í marga áratugi.
Selenskí áréttaði enn og aftur nauðsyn þess að vestræn ríki komi þeim til aðstoðar með því að láta þeim í té fullkomin eldflaugavarnarkerfi en hann segir rúmlega 2600 rússneskar stýriflaugar hafi sprungið í Úkraínu frá því innrásin hófst.