Innlent

Burðar­dýr dæmt í fimm­tán mánaða fangelsi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness hefur aðsetur í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness hefur aðsetur í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Kvenmaður var í dag dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í héraðsdómi Reykjaness fyrir innflutning á rúmu kílói af sterku kókaíni. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.

Konan kom hingað til lands með flugi frá París þann 25. apríl síðastliðinn og var með efnin innvortis við komuna. Um er að ræða ansi sterkt kókaín, með 65 til 73 prósent styrkleika sem samsvarar 73 til 82 prósent af kókaínklóríði.

Konan játaði brot sín fyrir dómi en hún hefur ekki áður orðið uppvís af refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé.

Af þeim gögnum sem voru fyrirliggjandi var ekki ráðið að hún hafi verið eigandi fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Konan var því dæmd til fimmtán mánaða fangelsisvistar og gert að greiða rúma 1,6 milljónir í sakarkostnað. Til frádráttar fangelsisvistarinnar kemur gæsluvarðhald konunnar frá 25. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×