Lögum samkvæmt geta útlendingar fengið ríkisborgararétt á tvo vegu. Annars vegar í gegnum Útlendingastofnun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og hins vegar í gegnum Alþingi en allsherjar- og menntamálanefnd fer þá í gegnum umsóknirnar.
Samhliða því að málsmeðferðartími Útlendingastofnunar hefur lengst hafa fleiri verið að leita til Alþingis. Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd, bendir á þetta hafi valdið miklum ágreiningi og leitt til þess að farið hafi verið fram á endurskoðun á málsmeðferð.
„Með það fyrir augum að það verði skýrt að það ferli sé fyrir einstaklinga sem geta ekki og munu ekki geta uppfyllt skilyrði sem eru fyrir því að geta fengið ríkisborgararétt í gegnum Útlendingastofnun.“
Einungis þriðjungur fékk afgreiðslu
Ferlið var mikið til umræðu í ár þar sem nefndin þurfti ítrekað að kalla eftir nauðsynlegum gögnum frá Útlendingastofnun til að afgreiða umsóknir. Af 71 umsókn sem barst tókst að lokum einungis að afgreiða um þriðjung þeirra. Staða þeirra sem fengu mál sitt ekki tekið fyrir verður þó óbreytt þar til umsóknir þeirra fá afgreiðslu - og þeim því ekki vísað úr landi.
Á fundi nefndarinnar á dögunum var skipað í sérstaka undirnefnd sem Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks leiðir og Arndís situr í sem hefur það verkefni að endurskoða fyrirkomulagið til framtíðar.
„Það sem stendur fyrst og fremst til að gera er að skýra það verklag sem Alþingi beitir. Vegna þess að eins og staðan er í dag er það mjög ógagnsætt og óskýrt og í rauninni eru engar leiðbeiningar,“ segir Arndís.
Hún segir að Alþingi muni þó sem áður hafa frjálsar hendur um það hverjir frá ríkisborgararétt. Mikilvægt sé að skilyrði verði ekki þrengd með þessu.
„Það er nógu þröngt nú þegar. Gríðarlega þröngt. Það eru ákaflega fáir sem fá ríkisborgararétt frá Alþingi. Ég legg mikla áherslu á að þetta ferli verði til staðar og verði virkt. Það er mikil þörf á því,“ segir Arndís.