Barcelona og hin 32 ára gamla Hermoso hafa átt góðu gengi að fagna undanfarin tvö ár. Liðið hafði verið nær óstöðvandi þangað til það lá gegn Lyon í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Börsungar geta þó ekki kvartað yfir framlagi Hermoso en hún er markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 174 mörk.
Hermoso lék með Barcelona frá 2013 til 2017 og svo aftur frá 2019 til 2022. Varð hún fimm sinnum spænskur meistari, fjórum sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari með félaginu. Það vekur því töluverða athygli að hún hafi samið við Pachuca í Mexíkó en frá þessu greindi félagið í vikunni.
És un orgull que hagis vestit la nostra samarreta.
— FC Barcelona Femení (@FCBfemeni) June 22, 2022
Gràcies, @jennihermoso pic.twitter.com/UhYiXOrulA
Ofan á að vera markahæsti leikmaður í sögu Barcelona er Hermoso líka markahæsti leikmaður í sögu Spánar með 45 mörk í 91 leik. Hún mun hins vegar ekki geta bætt við mörkum á Evrópumótinu í sumar vegna meiðsla á hné.
Hún meiddi liðbönd í hægra hné og verður frá keppni næstu vikurnar. Mun hún því einnig missa af byrjun Liga MX Femenil-deildarinnar í Mexíkó sem hefst 12. júlí næstkomandi.
Spánn er í B-riðli á EM ásamt Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi.