Í fréttum Stöðvar 2 var Reykjanesvirkjun heimsótt en sextán ár eru liðin frá því hún tók til starfa með tveimur 50 megavatta túrbínum. Núna er ætlunin að kreista meiri orku úr virkjuninni. Búið er að stækka stöðvarhúsið til að koma fyrir þriðju aflvélinni og reisa nýtt hús við hliðina, sem verður skiljustöð.

Framkvæmdir hófust í ársbyrjun í fyrra.
„Þær hafa gengið bara vonum framar. Við vorum snemma í því að bjóða verkið út og fengum mjög góða verktaka til þess að taka að sér verkefnið. Framkvæmdir hafa bara gengið á áætlun,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Helstu verkakar eru Ístak, Rafal og Hamar, sem og Fuji frá Japan með vélasamstæðuna, og þetta er umtalsverð fjárfesting.

„Þetta eru um átta milljarðar núna. En það var búið að fjárfesta dálítið fyrir. Þannig að allt í allt: Tíu milljarða verkefni.“
Framkvæmdir eru núna í hámarki en um eitthundrað og tuttugu manns vinna að stækkuninni þessa dagana.
„Í augnablikinu er þetta stærsta virkjunarframkvæmdin sem er í gangi. Og við teljum fulla þörf á að virkja frekar því það er virkileg eftirspurn, eins og fólk fann fyrir í vetur,“ segir Tómas.

Athygli vekur að ekki þarf að bora nýjar holur til orkuöflunar.
„Nei, hér er bara verið að nýta varmann betur frá virkjuninni og virkja hann í sjálfu sér. Við erum að framleiða 80 til 100 megavött í núverandi virkjun og notum svo glatvarmann til að framleiða auka 30 megavött,“ segir forstjórinn.
Það hefur gengið á ýmsu í jarðskorpunni undir Reykjanesi síðustu misserin. En skyldu menn við slíkar aðstæður vera smeykir við að standa í framkvæmdum á svæðinu?
„Vissulega er það svona ákveðið áhyggjuefni. En samt sem áður ekki.
Við erum að nýta þessa orku. Og með þessari eldvirkni er bara orkan að brjótast upp og við bara nýtum hana frekar. Þannig að það er hluti af því að vera að nýta jarðvarma að vera á svona svæðum, sem eru bæði stórkostlega falleg og eldvirk,“ svarar Tómas Már.

En hvenær verður orkan tilbúin til afhendingar?
„Við vonum að prófanir á tækjum og búnaði hefjist í desember og byrjum þá að afhenda orku í byrjun árs 2023.“
Orkan fer á almennan markað.
„Þetta mun fara bara inn í okkar viðskiptavinagrunn. Þannig að það er full þörf á þessu rafmagni í dag,“ svarar forstjóri HS Orku.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Árið 2014 var fjallað um Auðlindagarðinn á Suðurnesjum í þættinum Um land allt, sem sjá má hér: