„Óvinurinn er að reyna að bæta taktíska stöðu sína. Þeir komust nær, áður en hermenn okkar ýttu þeim til baka,“ segir í stöðuuppfærslu frá úkraínska hernum.
Í uppfærslunni segir einnig að Rússar reyni nú að ná völdum í tveimur bæjum sunnan Slóvíansk, nálægt borginni Kramatorsk. Þá reyni þeir að ná vegi sem tengir saman Lúhansk og Dónetsk.
Lavrov mættur til Balí
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er staddur á Balí þessa stundina að ræða við utanríkisráðherra G20-ríkjanna. Þetta verður í fyrsta sinn sem Lavrov hittir kollega sína frá Vesturlöndum síðan stríðið hófst.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur sagt að fundurinn verði ekki tækifæri fyrir Rússa að réttlæta stríðsátök sín. Baerbock hefur neitað að funda með í einrúmi með Lavrov, líkt og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.