Erlent

Von á tilkynningu á næstu mínútum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sagt er að Johnson muni segja af sér í dag.
Sagt er að Johnson muni segja af sér í dag. Getty/Dan Kitwood

Boris Johnson mun hætta sem leiðtogi Íhaldsflokksins í dag en halda áfram sem forsætisráðherra Bretlands þar til í haust. Tæplega sextíu ráðherrar, aðstoðarráðherrar og aðstoðarmenn í bresku ríkisstjórninni sagt af sér síðasta rúma sólarhringinn.

Boris Johnson mun vera með tilkynningu klukkan hálf tólf í dag. Sky News greinir frá þessu.

Samkvæmt heimildum BBC mun Johnson tilkynna afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins seinna í dag. Nýr leiðtogi Íhaldsflokksins verði kjörinn í haust og mun hann taka við sem forsætisráðherra.

Í morgun hafa sjö af ráðherrum Bretlands sagt af sér, til að mynda menntamálaráðherra, tæknimálaráðherra og öryggismálaráðherra. 

Nadhim Zahawi, sem var skipaður fjármálaráðherra fyrir tveimur dögum eftir afsögn Rishi Sunak, hefur sagt Johnson að segja af sér. Hann hafi rætt þetta við Johnson í gær en þar sem forsætisráðherrann hafi ekki hlustað á hann hafi hann verið tilneyddur til að tilkynna íbúum Bretlands þetta.

Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu á vegum Independent fyrir utan Downing stræti þar sem Johnson mun flytja ávarp sitt eftir örfáar mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×