Erlent

Fátt um svör eftir að sextán kóalabirnir fundust dauðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dánarmein dýranna er enn á huldu.
Dánarmein dýranna er enn á huldu. epa/Lukas Coch

Sextán kóalabirnir hafa fundist dauðir á trjáplantekru í Viktoríuríki í Ástralíu en dánarorsök þeirra er ókunn. Þrettán birnir fundust dauðir 14. júní síðastliðnir og þrír hafa fundist eftir það.

Kóalabirnirnir eru sagðir hafa drepist á síðustu tveimur vikum til allt að tólf mánuðum. 

Rannsóknir hafa ekki leitt í ljós hvað varð dýrunum að aldurtila en samkvæmt röntgenmyndum höfðu birnirnir ekki orðið fyrir beináverkum né báru hræ þeirra þess vitni að þeir hefðu verið skotnir.

Sérfræðingar segja mögulegt að kóalabirnirnir hafi drepist af völdum einhvers konar „umhverfisáhrifa“.

Árið 2020 var stofn Kóalabjarna í Viktoríu talinn telja um 413 þúsund dýr. Talið er að gríðarmiklir gróðureldar sem geisuðu í Ástralíu 2019 til 2020 hafi haft áhrif á um 4 prósent stofnsins.

Kóalabirnir eru ekki taldir í útrýmingarhættu í Viktoríu og Suður-Ástralíu en eru á lista yfir dýr í hættu í Nýju Suður-Wales og Queensland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×