Fjallað var um áformin í fréttum Stöðvar 2 í tengslum við Fjarðarheiðargöng, sem verða ekki aðeins lengstu veggöng á Íslandi heldur svo fjárfrek að 17,7 milljarða króna framlög á samgönguáætlun duga hvergi nærri fyrir áætluðum kostnaði upp á allt að 47 milljarða króna.

Í fréttum í gær var vitnað í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en þar segir að það sem upp á vantar muni koma úr gjaldtöku af umferð í jarðgöngum.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að horft sé til Færeyinga, sem stofnað hafi félag um jarðgangagerðina. Þar sé gjaldið haft nokkuð hátt, en samt hóflegt, á meðan menn borgi til baka nýjar fjárfestingar. Gjaldið sé síðan lækkað en það sé alltaf eitthvert gjald og segir ráðherrann að frumvarp um málið verði lagt fram á Alþingi í vetur.

„Það er fyrirhugað að hefja þá gjaldtöku í öllum göngum til þess að standa undir annarsvegar auknum rekstri þeirra, miðað við vegi, og hins vegar að búa til einhverskonar sjóðsstreymi til þess að standa undir framtíðar jarðgangagerð og þannig geta hugsanlega borað meira en ein göng í einu,“ segir Sigurður Ingi.
Íbúar á Seyðisfirði teljast núna vera 669. Það þýðir að 44 til 47 milljarða króna áætlaður kostnaður við Fjarðarheiðargöng verður á hvern íbúa á bilinu 66 til 70 milljónir króna eða um 200 milljónir á þriggja manna heimili í bænum.
„Já, þetta eru dýrar framkvæmdir. En engin spurning að þegar upp er staðið þá mun ávinningur samfélagsins verða gríðarlegur.“

Og það er víðar en af jarðgöngum sem ráðherrann boðar vegtolla, eins og af svokölluðum samvinnuleiðum.
„Og svo erum við að fara í að taka upp annarskonar gjaldtöku í umferðinni. Við erum að hætta með bensín- og dísilgjöld og fara í einhverskonar notkunargjöld. Þannig að þetta er allt liður í sömu breytingunni.“
En hvenær hefst gjaldtakan?
„Við þurfum þetta ár og fram á næsta til að undirbúnings. En síðan munum við kannski fara að sjá svona glitta í þessa breytingu á árinu 23 eða 4,“ segir Sigurður Ingi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: