Viðskipti innlent

Hagnaður Kviku banka tæp­lega tveimur milljörðum króna undir á­ætlun

Árni Sæberg skrifar
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka. kvika/vísir/vilhelm

Hagnaður Kviku banka hf. á öðrum ársfjórðungi er áætlaður 450 til 500 milljónir króna samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir fjórðunginn. Áætluð afkoma fyrir fjórðunginn var 2,15 til 2,4 milljarðar króna og vantar því mikið upp á, eða 1,8 milljarð króna.

Í tilkynningu Kviku til kauphallar segir að munur á áætlun og afkomu samstæðu bankans skýrist af lægri fjárfestingatekjum en gert hefði verið ráð fyrir. „Enda voru aðstæður á verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum með allra versta móti,“ segir í tilkynningunni.

Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 0,9 milljarða króna en gert hafi verið ráð fyrir að þær yrðu jákvæðar um 1 milljarð króna á tímabilinu. Fjárfestingatekjur voru því 1,9 milljarða lægri en áætlað hafði verið.

Í tilkynningunni segir að grunnrekstur samstæðunnar hafi verið sterkur á tímabilinu, hreinar vaxtatekjur hafi verið 1,9 milljarðar króna, hreinar þóknanatekjur 1,6 milljarðar króna, hrein iðgjöld og tjón einn milljarður króna og rekstrarkostnaður var 3,2 milljarðar króna sem sé samræmi við áætlanir.

Tekið er fram að uppgjörið sé enn í vinnslu og geti því tekið breytingum fram að birtingardegi sem bankinn áætlar að verði eftir lokun markaða þann 18. ágúst næstkomandi. Samhliða því verði uppfærð afkomuspá fyrir næstu fjóra fjórðunga birt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×