Enski boltinn

Brig­hton vill átta milljarða fyrir Cucurella

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hinn hárprúði Mark Cucurella gæti orðið leikmaður Manchester City. Þó aðeins en Brighton & Hove Albion lækkar verðmiðann.
Hinn hárprúði Mark Cucurella gæti orðið leikmaður Manchester City. Þó aðeins en Brighton & Hove Albion lækkar verðmiðann. Gareth Fuller/Getty Images

Pep Guardiola þarf að borga 50 milljónir punda eða rúmlega átta milljarða íslenskra króna til að fá Marc Cucurella, bakvörð Brighton & Hove Albion, í sínar raðir.

Englandsmeistarar Manchester City eru enn á ný í leit að nýjum bakverði. Oleksandr Zinchenko er farinn til Arsenal og Benjamin Mendy er í fangelsi og mun líklega aldrei spila knattspyrnu aftur sem atvinnumaður.

Guardiola vantar því nýjan bakvörð í annars ágæta bakvarðarsveit sína. Hann horfir hýru auga til landa síns Cucurella sem gekk í raðir Brighton á síðasta ári. Hinn 23 ára gamli Cucurella lék með Barcelona á sínum yngri árum og hefur heillað með spilamennsku sinni á Englandi.

Cucurella kostaði Brighton rúmlega 17 milljónir punda en félagið hefur lítinn áhuga á að láta hann fara nema það fái vel borgað. Manchester City bauð 30 milljónir punda í leikmanninn en því tilboði hefur einfaldlega verið hafnað.

Brighton vill 50 milljónir punda og ekki krónu minna. Hann yrði ekki fyrsti 50 milljón punda bakvörður City-liðsins en Kyle Walker og áðurnefndur Mendy kostuðu einnig 50 milljónir eða meira á sínum tíma.

David Ornstein, blaðamaður The Athletic, greinir frá því að Man City sé ekki tilbúið að borga uppsett verð og muni snúa sér að öðrum skotmörkum neiti Brighton að lækka verðið á leikmanninum.

Man City er ríkjandi Englandsmeistari á meðan Brighton endaði í 9. sæti á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×