Viðskipti innlent

Heiðar hættir sem forstjóri Sýnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Heiðar var ráðinn forstjóri Sýnar í apríl árið 2019.
Heiðar var ráðinn forstjóri Sýnar í apríl árið 2019. Vísir/Vilhelm

Heiðar Guðjónsson hefur sagt upp sem forstjóri Sýnar og mun uppsögnin taka gildi fyrir lok þessa mánaðar. Heiðar gekk um helgina frá sölu á öllum 12,72 prósenta hlut sínum í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningum til Kauphallar. 

Sýn hf. á og rekur meðal annars fjarskiptafélagið Vodafone og fjölmiðlana Vísi, Stöð 2, Bylgjuna og tengda miðla. Innherji greinir frá því að Heiðar hafi selt á genginu 64 krónur á hlut og fengið tæplega 2,2 milljarða króna fyrir bréf sín. 

Í flöggun til Kauphallar kemur fram að Gavia Invest ehf. hafi í morgun gengið frá kaupum á rúmlega 40 milljónum hluta í Sýn hf. sem samsvarar um 14,95 prósentum bréfa í félaginu. Með kaupunum er félagið nú orðið stærsti hluthafi Sýnar. 

Jón Skaftason í forsvari fyrir hóp sem keypti hlutinn 

Jón Skaftason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Strengs, er í forsvari fyrir Gavia Invest og fer hann með hlut í fjárfestingafélaginu í gegnum Pordoi ehf. Einnig fara Jonathan R. Rubini og Mark Kroloff hjá First Alaskan Capital Partners LLC með hlut í Gavia Invest í gegnum E&S 101 ehf. ásamt Andra Gunnarssyni. Að lokum eru Reynir Grétarsson og Hákon Stefánsson með hlut í fjárfestingafélaginu í gegnum Info Capital ehf. Þetta kemur fram í flöggun til Kauphallar.

Heiðar var ráðinn forstjóri fyrirtækisins árið 2019 og tók við af Stefáni Sigurðssyni. Heiðar gegndi áður formennsku í stjórn félagsins.

Vísir er í eigu Sýnar. Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×