Viðskipti innlent

Krefjast stjórnar­kjörs í Sýn

Árni Sæberg skrifar
Höfuðstöðvar Sýnar eru á Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Sýnar eru á Suðurlandsbraut. Vísir/Hanna

Gavia Invest ehf. hefur farið fram á að boðað verði hluthafafundar í Sýn hf., en félagið fer nú með atkvæðisrétt fyrir hlutafé í Sýn sem nemur 16,06 prósent. Þess er krafist að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin.

Gavia Invest gekk frá kaupum á öllu hlutafé Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, í félaginu yfir helgina en hann átti stærstan einstakan hlut í félaginu, 12,72 prósent. Í gær bætti félagið svo enn við sig hlutum í Sýn og á nú ríflega 43,1 milljón hluta eða 16,08 prósent alls hlutafjár í félaginu.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að nú hafi Gavia farið fram á að stjórn Sýnar boði til hluthafafundar og að þar verði ný stjórn kjörin.

Jón Skaftason sem fer fyrir Gavia Invest, sem stofnað var sérstaklega utan um kaupin á Sýn, segir að eigendur þess muni hafa virka aðkomu að rekstri Sýnar. 

Ljóst er að með 16,08 prósent atkvæða á hluthafafundi getur Gavia haft töluverð áhrif á samsetningu nýrrar stjórnar Sýnar og þar með hver eftirmaður Heiðars í forstjórastólnum verður.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Gavia Invest stærsti hluthafi Sýnar eftir kaup á hlut Heiðars

Gavia Invest, fjárfestingafélag sem er að hluta til í eigu Reynis Grétarssonar, er orðið stærsti hluthafi fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækisins Sýnar með 14,95 prósenta hlut eftir kaup á eignarhlut Heiðars Guðjónssonar um helgina Þetta kemur fram í flöggun til Kauphallarinnar.

Heiðar hættir sem forstjóri Sýnar

Heiðar Guðjónsson hefur sagt upp sem forstjóri Sýnar og mun uppsögnin taka gildi fyrir lok þessa mánaðar. Heiðar gekk um helgina frá sölu á öllum 12,72 prósenta hlut sínum í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningum til Kauphallar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×