Fótbolti

Katarliðið í furðulegum sex mánaða æfingabúðum fyrir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katar heldur heimsmeistarakeppnina í fótbolta í nóvember og desember á þessu ári og liðið þeirra mætir vel undirbúið til leiks.
Katar heldur heimsmeistarakeppnina í fótbolta í nóvember og desember á þessu ári og liðið þeirra mætir vel undirbúið til leiks. Getty/Nicola Sua

Heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram í Katar seinna á þessu ári og þetta verður stórfurðuleg heimsmeistarakeppni sem klárast rétt fyrir jól.

Katar er fyrsta múslimaþjóðin í Austurlöndum nær sem heldur þetta risamót en það þýddi að færa þurfti mótið af heitasta tímanum. Mótið fer því ekki fram um sumar heldur í nóvember og desember þar sem hitinn er bærilegri.

Það er ekki bara leiktíminn og leikstaðurinn sem er furðulegur heldur verður undirbúningur heimamanna einnig að teljast það líka.

Katarbúar kölluðu saman 27 manna hóp í síðasta mánuði og hann mun æfa saman og spila æfingarleiki allt fram að móti. Sex mánaða æfingabúðir takk fyrir.

Fyrsti leikur Katar á heimsmeistaramótinu er á móti Ekvador 21. nóvember.

Katar byrjaði æfingar sínar á Spáni en fluttu sig síðan yfir til Austurríki þar sem liðið mun taka þátt í fjögurra þjóða æfingamóti með Marokkó, Gana og Jamaíka.

„Hugmyndin er ekki algjörlega út í hött en þetta er samt mjög furðulegt,“ er haft eftir ónefndum leikmanni breska ríkisútvarpsins úr katörsku deildinni.

„Þetta er bara of langur tími. Þeir hefðu átt að gera þetta á styttri tíma. Það er mjög erfitt fyrir leikmenn andlega að taka þá út úr keppnisleikjum liða sinna,“ sagði sá sami.

„Það er erfitt að vera svona lengi saman. Leikmennirnir gætu brunnið út andlega og þeir ættu að stytta þessar æfingarbúðir sínar,“ sagði viðmælandi BBC Sport.

Fyrir tuttugu árum síðan þá fór lið Suður-Kóreu í fimm mánaða æfingabúðir fyrir HM á heimavelli þar sem liðið endaði á að komast alla leið í undanúrslitin

Á dagskrá hjá Katar er að fara vel yfir taktík og leikskipulag auk þess að þétta hópinn.

Auk leiksins á móti Ekvador þá mætir Katar einnig liðum Senegal (25. nóvember) og Hollands (29. nóvember) í riðli sínum á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×