Enski boltinn

Ráðinn í þjálfarateymi Man Utd átján árum eftir að hafa sparkað þeim úr Meistaradeildinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Benni McCarthy í frægum leik á Old Trafford 2004.
Benni McCarthy í frægum leik á Old Trafford 2004. vísir/Getty

Suður-Afríkumaðurinn Benni McCarthy hefur verið ráðinn inn í þjálfarateymi Erik Ten Hag hjá Manchester United og er þegar tekinn til starfa.

Mun hann einblína á þjálfun sóknarleiks liðsins og vinna náið með sóknarmönnum félagsins og er þjálfarateymi liðsins því fullskipað fyrir komandi leiktíð að því er segir í tilkynningu félagsins.

Nafnið vekur eflaust upp slæmar minningar hjá einhverjum stuðningsmönnum Man Utd því ein af stærstu stundum McCarthy á leikmannaferli sínum kom líklega á Old Trafford árið 2004 en McCarthy var þá leikmaður Porto og tók þátt í frægu einvígi gegn Man Utd í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem McCarthy skoraði tvö mörk þegar Porto sló Man Utd úr keppni.

Átti Porto þá eftir að fara alla leið og vinna Meistaradeildina undir stjórn Jose Mourinho.

Eftir tíma sinn hjá Porto mætti McCarthy í enska boltann þar sem hann lék fyrir Blackburn og West Ham.

Hinn 44 ára gamli McCarthy hefur getið af sér gott orð sem þjálfari eftir að leikmannaferlinum lauk en hann var valinn þjálfari ársins í Suður-Afríku á síðustu leiktíð þegar hann stýrði AmaZulu til silfurverðlauna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×