Ísland var öruggt með sæti í átta liða úrslitum HM fyrir leik en ljóst var að jafntefli eða sigur Íslands myndi tryggja þeim efsta sætið.
Leikur liðanna í kvöld var nokkuð jafn framan af en Ísland var þó alltaf skrefi á undan. Íslensku stúlkurnar skoruðu fyrsta mark leiksins og voru ávallt skrefi á undan. Þær leiddu með einu til þremur mörkum framan af hálfleiknum en um hann miðjan var staðan 9-6.
Mest náði Ísland fjögurra marka forskoti, 12-8, en þriggja marka munur var í hálfleik, 13-10.
Ísland komst þá 16-11 yfir snemma í síðari hálfleik en heimakonur svöruðu með þremur mörkum í röð til að minnka muninn í 16-14. Aftur kom að áhlaupi Íslands sem komst í 18-14 en skömmu síðar var munurinn orðinn eitt mark, 18-17.
Áfram gekk leikurinn líkt og í fyrri hálfleik þar sem munurinn var á bilinu eitt til fjögur mörk en aldrei tókst Norður-Makedóníu að brúa bilið til fulls. Afar mikilvæg markvarsla úr vítakasti í stöðunni 24-22 fyrir Ísland þegar tvær mínútur voru eftir gerði að verkum að íslenska liðið var aldrei í mikilli hættu að missa sigurinn frá sér.
25-22 urðu lokatölur en ljóst er að Ísland mun mæta Hollandi í 8-liða úrslitunum. Þær hollensku lentu í öðru sæti riðils 3 eftir tap fyrir toppliði Suður-Kóreu í kvöld.
Tap heimakvenna þýðir að þær eru úr leik en sigur Svíþjóðar á Íran tryggði þær sænsku áfram með Íslandi.
Mörk Íslands:
Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 1.