Erlent

Stjaksettu höfuð úkraínsks hermanns

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta landsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta landsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AP/David Goldman

Myndefni af afskræmdu líki úkraínsks hermanns sem fangaður var af Rússum hefur verið í dreifingu um helgina og vakið mikla reiði. Hermaðurinn virðist hafa verið afhöfðaður og höfði hans og höndum komið fyrir á skafti í borginni Popasna í Úkraínu.

Rétt er að vara við myndum af höfðinu, sem sjá má hér neðar í fréttinni.

Borgin er í Donbas og féll í hendur hersveita frá Téténíu í maí en svo virðist sem myndefnið hafi verið tekið upp í síðasta mánuði, samkvæmt frétt Guardian.

Meðal þeirra sem hafa birt myndefnið er Serhiy Haidai, úkraínskur ríkisstjóri Luhansk, héraðs sem er að fullu í höndum Rússa. Hann birti mynd af stjaksettu höfðinu um helgina. Við myndina skrifaði hann texta þar sem hann líkti rússneskum hermönnum við orka úr Hringadróttinssögu. Það hafa Úkraínumenn gert ítrekað frá upphafi innrásarinnar.

„Það er ekkert mennskt við Rússana. Við eigum í stríði við ómanneskjulegar verur,“ sagði Haidai.

Olexander Scherba, fyrrverandi sendiherra Úkraínu í Austurríki tísti einnig um atvikið á föstudaginn og birti hann myndir af höfðinu.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem myndefni í dreifingu á netinu virðist sýna grimmileg ódæði rússneskra hermanna gegn úkraínskum stríðsföngum.

Skáru undan hermanni

Þann 28. júlí birtist fyrst myndband á Telegram sem sýndi tvo rússneska hermenn halda manni klæddum úkraínskum herfatnaði niðri á meðan sá þriðji skar undan honum með dúkahníf. Rússarnir hæddust því næst af hermanninum áður en maðurinn með hnífinn skaut hann í höfuðið.

Myndbandið, sem var í þremur hlutum, var í dreifingu á rússneskum Telegram-síðum, þar sem margir fögnuðu því til að byrja með. Nokkrum klukkustundum eftir birtingu var staðhæft að myndbandið væri sviðsett til að koma óorði á hermenn Rússa.

Myndbandið var tekið upp í bæ nærri Lysychansk en hann féll í hendur Rússa í upphafi síðasta mánaðar.

Hringdu í morðingjann

Rannsakendur Bellingcat gátu borið kennsl á manninn sem misþyrmdi og myrti úkraínska hermanninn á myndbandinu. Sá tilheyrir téténskri hersveit í rússneska hernum en frekari upplýsingar um hvernig hann var fundinn má finna á vef samtakanna.

Hringt var í hann og þvertók hann fyrir að vera umræddur maður. Hann viðurkenndi þó að starfsmenn Leyniþjónustu Rússlands (FSB) hefðu tekið hann í viðtal vegna myndbands. Hermaðurinn sagði að starfsmenn FSB hefðu tilkynnt honum að myndbandið sýndi í raun dulbúna úkraínska hermenn misþyrma og myrða annan úkraínskan hermann.

Hann sagðist hafa farið aftur til Rússlands fyrir um mánuði síðan og að hann hefði engan myrt.

Maðurinn gat þó ekki sagt hvernig hinir meintu úkraínsku hermenn komu höndum yfir nákvæmlega eins hatt og hann hefur áður verið myndaður með, eins armband og eins einkennisbúning. Þá þvertók hann fyrir að hafa verið á hvítum bíl eins og sást á aftökumyndbandinu, þrátt fyrir að hafa áður verið myndaður á þannig bíl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×