Innlent

Fjór­tán og fimm­tán ára börn skáru niður regn­boga­fánana á Hellu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skorið var á bönd allra regnbogafána sveitarfélagsins í upphafi vikunnar.
Skorið var á bönd allra regnbogafána sveitarfélagsins í upphafi vikunnar. Rangárþing ytra

Við rannsókn lögreglu á eignaspjöllum sem framin voru á Hellu aðfaranótt mánudags kom í ljós að það voru fjórtán og fimmtán ára börn sem báru ábyrgð á verknaðnum. Málið telst vera upplýst að sögn lögreglu.

Aðfaranótt síðasta mánudags var skorið á bönd allra regnbogafána bæjarfélagsins Hellu sem höfðu verið settir upp í tilefni af Hinsegin dögum. Í kjölfar þess að fánarnir níu voru teknir niður skoraði Klara Viðarsdóttir, starfandi sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, á gerandann að gefa sig fram og biðjast afsökunar.

Í samtali við RÚV sagðist Klara hafa tilkynnt málið til lögreglu en Elín Jóhannsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við Fréttablaðið að ekki væri um að ræða hatursglæp heldur skemmdarverk.

Nú hefur málið verið upplýst en í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að nokkur fjórtán og fimmtán ára gömul börn hafi verið að verki. Málið telst nú vera upplýst og er í hefðbundnu afgreiðsluferli hjá lögreglu og barnavernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×