Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Mbl greindi fyrst frá því að fólk hefði látist í árásinni.
Tveir einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við málið að sögn Birgis. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru tengsl á milli einstaklinganna en Birgir getur ekki sagt hver þau voru.
„Meintur gerandi fannst einnig látinn á vettvangi, það er að segja meintur gerandi skotárásarinnar. Í framhaldi var hlúð að hinum slasaða, vettvangur tryggður og lögreglan á Norðurlandi eystra kvödd til. Hún fer með rannsókn manndrápsmála,“ segir Birgir.
Ekki vitað um líðan hins særða
Birgir segir málið á afar viðkvæmu stigi og að fólk sé slegið. Unnið sé að því að gera aðstandendum viðvart. Aldur hinna látnu er ókunnur en öruggt er að um er að ræða fullorðið fólk. Þá hafi hinn særði verið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en ekki er vitað um líðan hans.
Rannsókn málsins er annars í höndum lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Auk þess hefur áfallateymi Rauða krossins í umdæmi verið virkjað.
Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi vestra birti á Facebook klukkan ellefu kemur fram að þó lögreglan hafi vopnbúið sig áður en hún kom á vettvang hafi hún ekki þurft að grípa til vopna. Þar kemur einnig fram að von sé á annarri tilkynningu frá lögreglunni klukkan sex í kvöld.