Innlent

Niður­felling stað­fest á kyn­ferðis­brota­málinu frá 2010

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson voru nýbyrjaðir að spila fyrir A-landslið karla árið 2010.
Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson voru nýbyrjaðir að spila fyrir A-landslið karla árið 2010. Vísir

Ríkissaksóknari hefur staðfest niðurfellingu héraðssaksóknara á kynferðisbrotamáli sem höfðað var gegn knattspyrnumönnunum Aroni Einari Gunnarssyni og Eggerti Gunnþóri Jónssyni. 

Þetta staðfestir ríkissaksóknari í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu en Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður Arons Einars, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.

Kona kærði knattspyrnumennina tvo fyrir hópnauðgun í Kaupmannahöfn sumarið 2010. Málið var rannsakað og fór á borð héraðssaksóknara sem felldi málið niður í maí síðastliðnum. Konan kærði ákvörðunina til ríkissaksóknara sem hefur nú staðfest niðurfellinguna.

Aron Einar var ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir landsliðsverkefni í júní. Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sagði á þeim tíma að ástæðan væri nýsamþykkt viðbragðsáætlun stjórnar KSÍ varðandi meint alvarleg brot starfsmanna KSÍ eða landsliðsmanna.

Samkvæmt viðbragðsáætluninni skulu landsliðsmenn stíga til hliðar þegar mál þeirra eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi, eða hjá samskiptaráðgjafa. Nú er meðferð málsins lokið hjá rannsóknar- og ákæruvaldi hér á landi.

Aron Einar spilar með liði Al-Arabi í Katar. Eggert Gunnþór er leikmaður með FH í Bestu deild karla.

Fréttin var uppfærð með svari ríkissaksóknara klukkan 20:50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×