Erlent

Selenskí segir varaaflstöðvar hafa forðað kjarnorkuslysi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússneskur hermaður stendur vörð við Zaporizhzhia-kjarnorkuverið.
Rússneskur hermaður stendur vörð við Zaporizhzhia-kjarnorkuverið. AP

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir að litlu hafi mátt muni að kjarnorkuslys yrði þegar síðasta rafmagnslínan að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu datt út í átökum í kringum verið. Nokkrar klukkustundir tók að gera við línuna.

Forsetinn hefur ítrekað að greiða verði fyrir aðgangi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að verinu.

Selenskí sagði árásir Rússa hafa kveikt elda í öskupyttum nærliggjandi kolaorkuvers, sem varð til þess að rafmagnstenging við kjarnorkuverið datt út. Hann sagði varaaflstöðvar hafa haldið verinu gangandi og þannig bjargað málum.

Viðræður hafa staðið yfir í nokkrun tíma um aðgengi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að verinu, sem er á valdi Rússa. Rússar hafa hins vegar hafnað því að hörfa frá verinu og halda því fram að það myndi eingöngu gera slæma stöðu verri.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Selenskí í gær og í framhaldinu hvöttu Bandaríkin Rússa til að samþykkja friðað svæði umhverfis kjarnorkuverið, sem er það stærsta í Evrópu. Þá varaði utanríkisráðuneytið Rússa við að gera tilraunir til að beina orku frá verinu annað en til Úkraínumanna, sem ættu hana með réttu.

Rússar segja rafmagnsleysið mega rekja til ögrana af hálfu bardagamanna Selenskís, eins og það var orðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×