Í flöggun til Kauphallarinnar í morgun kemur fram að sjóðir Capital Group fari nú með 4,92 prósenta hlut í Íslandsbanka, sem jafngildir um 98,4 milljónum hluta að nafnvirði, og hafa þeir því minnkað eignarhlut sinn um 0,3 prósentur frá því fyrr í þessum mánuði.
Miðað við meðalgengi bréfa Íslandsbanka á síðustu tveimur vikum má ætla að Capital Group, eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki heims með eignir í stýringu að fjárhæð samtals 2,7 billjónir Bandaríkjadala, hafi selt bréf í Íslandsbanka fyrir liðlega 800 milljónir króna á tímabilinu. Á sama tíma hafa helstu lífeyrissjóðir landsins, sem eiga orðið samanlagt yfir 30 prósenta hlut í bankanum, haldið áfram að bæta við stöðu sína í Íslandsbanka.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um 12 prósent frá því í byrjun júlímánaðar og er markaðsvirði bankans, sem er að 42,5 prósentum hluta í eigu ríkissjóðs, nú um 265 milljarðar króna.
Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðir Capital Group losa um eignarhlut sinn í Íslandsbanka eftir að þeir keyptu fyrir um einn milljarð króna í bankanum í útboði ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í marsmánuði. Tveimur mánuðum síðar, eins og Innherji hefur áður fjallað um, þá stækkaði félagið lítillega við stöðu sína í bankanum og var komið með um 5,22 prósenta hlut sem gerði það að fjórða stærsta hluthafa Íslandsbanka.
Fyrir hið lokaða útboð ríkissjóðs fyrr á þessu ári var Capital Group næst stærsti hluthafi Íslandsbanka – á eftir ríkissjóði – með meira en fjögurra prósenta hlut en sjóðir félagsins voru á meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði og skráningu bankans í Kauphöllina í júní í fyrra. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Capital Group, sem er einnig í hópi stærstu hluthafa Marels, í Íslandsbanka er í dag rúmlega þrettán milljarðar króna.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sagði í viðtali við breska tímaritið Euromoney í maí síðastliðnum að hann hefði verið sérstaklega ánægður með þátttöku bandaríska félagsins í síðasta útboði ríkissjóðs – Capital Group keypti þá 9 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 117 krónur á hlut – í ljósi þess að félagið hafði þá verið selja sig niður með markvissum og áberandi hætti í evrópskum bönkum, til dæmis Deutsche Bank og Commerzbank.
Hagnaður Íslandsbanka jókst um 36 prósent á fyrri árshelmingi og nam samtals 10,85 milljörðum króna eftir skatt. Arðsemi á áframahaldandi rekstur var 10,7 prósent, sem er í samræmi við markmið bankans. Bætta afkomu Íslandsbanka mátti einkum rekja til meiri vaxtatekna, samhliða hækkandi vaxtastigi, sem jukust um tæplega 2,9 milljarða á milli ára en hreinar þjónustutekjur hækkuðu einnig um nærri 13 prósent á tímabilinu.
Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á söluferli Íslandsbanka, eftir að hafa fallist á beiðni þess efnis frá fjármálaráðherra, og er niðurstöðu hennar að vænta í næsta mánuði. Þá hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans einnig til rannsóknar tiltekna þætti í tengslum við útboðið og en sé athugun beinist að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja, meðal annars þátttöku starfsmanna þeirra í útboðinu og hvort fjárfestar hafi réttilega verið metnir hæfir, en ekki störfum Bankasýslunnar.
Frekari sala ríkissjóðs á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka hefur verið sett á ís á meðan beðið er eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins.