Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, þar sem segir að í fyrsta sinn síðan vorið 2021 séu fleiri en eitt þúsund íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu.
Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 1.013 íbúðir til sölu en í lok júlí voru þær aðeins sjö hundruð og því hefur framboðið aukist um 45 prósent á einum mánuði. Lægst fór framboðið í 437 íbúðir í byrjun febrúar.

Umsvif á fasteignamarkaði hafa farið minnkandi að undanförnu. Eru merki um að hann fari kólnandi eftir miklar hækkanir að undanförnu.
Er tekið fram á vef HMS að framboðsaukningin virðist einkum vera til komin vegna eldri íbúða en framboð á nýjum íbúðum hafi vaxið hægar.
„Nú eru 151 ný íbúð til sölu en fjöldi þeirra fór minnst í 57 íbúðir. Aukið framboð er því ekki hægt að skýra með auknu framboði nýrra íbúða heldur er líklegasta skýringin sú að hægt hafi á sölu vegna minnkandi eftirspurnar.“