Gorbatsjov fæddist í Privolnoye í mars árið 1931. Bærinn tilheyrir í dag Rússlandi en tilheyrði þá Sovétríkjunum.
Hann varð meðlimur Kommúnistaflokksins í landinu árið 1950, þá nítján ára háskólanemi, en á þeim tíma lærði hann lögfræði við Háskólann í Moskvu.
Gorbatsjov var valinn aðalritari Kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum árið 1985, þá 54 ára gamall. Flokkurinn var eini stjórnmálaflokkurinn í Sovétríkjunum á þessum tíma og Gorbatsjov þar með orðinn leiðtogi landsins.
Fundaði í Höfða
Gorbatsjov kom hingað til lands árið 1986 og fundaði með Ronald Reagan, þáverandi forseta Bandaríkjanna, í Höfða vegna Kalda stríðsins. Fundurinn er einn sá þekktasti í sögunni en lítið kom upp úr honum. Leiðtogarnir komust ansi nálægt því að útiloka notkun kjarnorkuvopna í stríðinu en tókst ekki að semja um það í Reykjavík.

Kalda stríðinu lauk árið 1991 þegar Sovétríkin féllu en árið áður hafði Gorbatsjov fengið Friðarverðlaun Nóbels fyrir hlutverk sitt í að bæta samskipti vestursins og austursins.
Mikil gagnrýni á flokkinn
Gorbatsjov reyndi að breyta stefnu Kommúnistaflokksins með glasnost (opnun) og perestrojka (endurskipulagningu). Til að mynda var tjáningarfrelsi aukið í landinu á valdatíma hans en því fylgdi mikil gagnrýni á Kommúnistaflokkinn og Sovétríkin í heild sinni.
Þessi stefna hans leiddi einnig til þess að íbúar Eystrasaltsríkjanna urðu djarfari í baráttu sinni um sjálfstæði.
Gorbatsjov var síðasti leiðtogi Sovétríkjanna en árið 1991 féllu þau en fjöldi þjóða hafði þá lýst yfir sjálfstæði sínu frá ríkjunum. Gorbatsjov reyndi sitt besta við að halda ríkjunum saman áður en það gekk ekki. Þeir Rússar sem syrgja Sovétríkin hafa ávallt gagnrýnt Gorbatsjov fyrir þann óróa sem hann skapaði með þessum stefnum sínum.
Gorbatsjov lést í dag á sjúkrahúsi í Moskvu en hann hafði dvalið þar um nokkra stund vegna veikinda. Ekki hefur verið greint nánar frá veikindum hans hingað til.