Viðskipti innlent

Lands­bankinn fyrstur til að hækka vextina

Atli Ísleifsson skrifar
Ný vaxtatafla bankans tekur gildi í dag, 1. september.
Ný vaxtatafla bankans tekur gildi í dag, 1. september. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur ákveðið að hækka breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,75 prósentustig og verða þeir eftir breytingu sjö prósent.

Breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,20 prósentustig. Fastir vextir nýrra óverðtryggðra og verðtryggðra íbúðalána verða hins vegar óbreyttir, en nú vaxtatafla bankans tekur gildi í dag.

Þetta var tilkynnt á vef bankans í morgun, en Seðlabankinn hækkaði síðustu viku stýrivexti sína um 0,75 prósentustig, úr 4,75 prósent í 5,5 prósent. Íslandsbanki og Arion banki hafa enn ekki tilkynnt um hækkun vaxta hjá sér eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku.

Á vef Landsbankans segir að kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækki um 0,75 prósentustig og kjörvextir á verðtryggðum útlánum hækki um 0,20 prósentustig. Þá hækki yfirdráttarvextir um 0,75 prósentustig.

„Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um allt að 0,75 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,15 prósentustig.

Ofangreind vaxtaákvörðun er tekin í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands frá 24. ágúst sl. en þá hækkaði Seðlabankinn vexti um 0,75 prósentustig. Vaxtabreytingarnar taka einnig mið af vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum Landsbankans.

Ný vaxtatafla tekur gildi fimmtudaginn 1. september 2022. Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka þó gildi í samræmi við tilkynningar þar að lútandi sem sendar verða viðskiptavinum í netbanka,“ segir á vef Landsbankans.


Tengdar fréttir

Stýri­vaxta­hækkanir komi verst við þá sem keyptu hús­næði í Co­vid

Þingmaður Samfylkingarinnar kallar eftir því að stjórnvöld ráðist í sértækar aðgerðir til að bregðast við stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem kynnt var í dag. Hækkunin komi sérstaklega illa niður á þeim sem keyptu húsnæði í heimsfaraldri með hvatningu fjármálaráðherra og seðlabankastjóra. 

Seðla­bankinn hækkar stýri­vexti um 0,75 prósentur

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, fara því úr 4,75 prósent í 5,5 prósent. Þetta er áttunda stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×