Fótbolti

„Ronaldinho og Neymar hvöttu mig til að fara til Barca“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Raphinha.
Raphinha. vísir/Getty

Brasilíski sóknarmaðurinn Raphinha var einn eftirsóttasti knattspyrnumaður heims í sumar þegar ljóst varð að hann vildi yfirgefa enska úrvalsdeildarliðið Leeds United.

Hann var nálægt því að ganga í raðir Chelsea en fór að lokum til Barcelona og segir tvo landa sína hafa haft mikil áhrif á þá ákvörðun.

„Það hefur verið draumur minn að klæðast treyju Barcelona frá því ég var mjög ungur. Allt frá því að Ronaldinho mætti til Barcelona. Þegar hann spilaði þar fór ég að fræðast meira um félagið og hef alltaf viljað vera hluti af því,“ segir Raphinha.

„Þessi bernskudraumur var sterkari en aðrir þættir eins og peningar því ég hafði úr fleiri tilboðum að velja.“

Brasilískir leikmenn hafa í gegnum tíðina verið í lykilhlutverkum hjá katalónska stórveldinu og Raphinha vonast til að geta fetað í spor góðs vinar síns, Neymar.

„Ronaldinho talaði við pabba minn og óskaði mér til hamingju. Ég tala sjálfur mikið við Neymar og hann sagði mér að ég myndi ekki sjá eftir því að fara til Barcelona. Það var rétt hjá honum,“ segir Raphinha.

Barcelona hefur byrjað tímabilið vel og hefur Raphinha komið við sögu í öllum deildarleikjum liðsins til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×