Eins og við var að búast voru það gestirnir í Chelsea sem byrjuðu betur. Liðið fékk vítaspyrnu strax á þriðju mínútu leiksins og Fran Kirby fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Rachael Laws í marki heimakvenna.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 0-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Heimakonur fengu svo sjálfar vítaspyrnu þegar um 25 mínútur voru til leiksloka. Katie Stengel steig á punktinn og skoraði framhjá Zecira Musovic og staðan orðin 1-1.
Lengi vel stefndi í að 1-1 yrðu lokatölur, en heimakonur fengu svo aðra vítaspyrnu þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Líkt og rúmum tuttugu mínútum áður steig Katie Stengel á punktinn og niðurstaðan varð sú sama.
Liverpool fagnaði því mögnuðum 2-1 sigri gegn ríkjandi meisturum Chelsea og óhætt að segja að titilvörnin byrji ekki vel.