Það var Romee Leuchter sem kom hollenska liðinu Ajax í forystu á 18. mínútu er liðið heimsótti Arsenal í kvöld áður en hin sænska Stina Blackstenius jafnaði metin fyrir heimakonur fimm mínútum síðar.
Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik og staðan því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Kim Little kom Arsenal svo í forystu með marki af vítapunktinum eftir tæplega klukkutíma leik og lengi vel stefndi í að þetta yrði sigurmark leiksins.
Romee Leuchter var þó ekki á því að ætla að fara að tapa þessum leik og hún jafnaði metin með sínu öðru marki þegar um sjö mínútur voru til leiksloka. Lokatölur því 2-2 og liðin fara jöfn inn í síðari viðureignina sem fram fer í Hollandi á Miðvikudaginn í næstu viku. Liðið sem hefur betur í þeim leik vinnur sér inn sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
A frustrating night at Meadow Park.
— Arsenal Women (@ArsenalWFC) September 20, 2022
Onto the second leg in Amsterdam. @UWCL 🏆 pic.twitter.com/cdvPNdgtUT
Þá fór einnig fram fjörugur leikur í Skotlandi þar sem Rangers tók á móti portúgalska liðinu Benfica.
Kayla McCoy kom heimakonum í forystu um miðjan fyrri hálfleikinn áður en Ana Vitoria jafnaði metin fyrir gestina og sá til þess að staðan var 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Vitoria var svo aftur á ferðinni á 57. mínútu þegar hún kom Benfica yfir, en McCoy jafnaði metin fyrir heimakonur strax í næstu sókn.
Það var svo Paula Encinas sem tryggði gestunum í Benfica 2-3 sigur í leiknum með marki á 78. mínútu og þær portúgölsku fara því með eins marks forystu inn í síðari leikinn sem fram fer á miðvikudaginn í næstu viku.