Neytendur

Fær endur­greitt þrátt fyrir and­lits­farða á peysunni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ekki þótti sannað að andlitsfarðinn hafi verið í peysunni þegar konan skilaði henni.
Ekki þótti sannað að andlitsfarðinn hafi verið í peysunni þegar konan skilaði henni. Getty

Kona hafði betur gegn fyrirtæki í máli sem kærunefnd vöru- og þjónustukaupa tók fyrir í síðustu viku. Deilumálið var hvort andlitsfarðaklessa hefði komið fyrir eða eftir að peysu var skilað aftur til verslunarinnar.

Konan hafði fengið jogging galla, peysu og buxur, í jólagjöf árið 2021. Hún mátaði gallann á jóladag, að hennar sögn ómáluð, og sá að gallinn passaði ekki. Hún fór því í verslunina fyrsta opnunardag eftir áramót, 6. janúar, og freistaði þess að skila gallanum gegn því að fá inneignarnótu.

Konan segir að þegar hún hafi mætt hafi verið lítið að gera og hún hafi því ákveðið að máta nokkrar flíkur á meðan hún var í versluninni. Þá hafi starfsmaður innt hana eftir því hvort hún væri með farða sem gæti farið í flíkurnar sem hún var að máta.

Treysti starfsmanninum

Þegar mátuninni var lokið óskaði konan eftir því að skila gallanum. Starfsmaður tjáði henni að hún gæti tekið við flíkunum og fengi inneignarnótu senda í tölvupósti. Konunni fannst það sérstakt en ákvað að treysta starfsmanninum þar sem hún var henni málkunnug.

Inneignarnótan barst aldrei og tveimur dögum síðar hafði konan samband við verslunina og athugaði málið. Þá fékk hún senda ljósmynd af peysunni og segir konan að greina hafi mátt skugga á henni. Starfsmaðurinn sem sendi myndina fullyrti að um andlitsfarðablett væri að ræða.

14. janúar fór konan aftur í verslunina til að leita sátta. Hún segir starfsmenn verslunarinnar ekki hafa sýnt vilja til að leysa málið en að hún hafi aftur á móti fengið skilaboð frá öðrum starfsmanni verslunarinnar samdægurs þar sem henni var tjáð að hún gæti fengið inneign sem hafi numið helmingi andvirðis peysunnar. Konan féllst ekki á það.

Sögð hafa staðið í hótunum

Í andsvörum verslunarinnar segir að það hafi verið mikið að gera þennan dag sem konan kom í verslunina. Því hafi starfsmaðurinn sem kannaðist við konuna ákveðið að leyfa henni að skilja peysuna eftir og myndi skoða hana síðar.

Við þá skoðun hafi komið í ljós að dökkt far eftir andlitsfarða væri í hálsmáli peysunnar. Því hafi konan ekki fengið að skila peysunni. Í andsvörunum segir að konan hafi staðið í hótunum við starfsmenn verslunarinnar vegna málsins.

Versluninni þótti fullsannað að peysunni hafi verið skilað 6. janúar og að enginn annar hafi getað skitið peysuna út áður en ljósmyndin var send á konuna.

Niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er sú að verslunin skuli endurgreiða konunni fullt verð gallans, 28.980 krónur. Nefndin lítur á sem svo að það halli á verslunina að hafa ekki skoðað peysuna nægilega vel áður en tekið var við henni.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×