Erlent

„Þeir reyna að tor­tíma okkur og þurrka út af yfir­borði jarðar“

Atli Ísleifsson skrifar
Vólódímír Selenskí er forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí er forseti Úkraínu. AP

Sprengjuárásir rússneska hersins á Kænugarð og fleiri úkraínskar borgir í morgun sýna fram á að Rússar séu að reyna að tortíma Úkraínumönnum og þurrka þeim út af yfirborði jarðar.

Þetta segir Vólódímír Selenskí í færslu á Telegram í morgun, en sprengjuárásir hafa verið gerðar á Kænugarð og að minnsta kosti tíu úkraínskar borgir til viðbótar í morgun.

BBC segir frá því að átta manns hið minnsta hafi látið lífið og 24 særst í sprengjuárásunum á Kænugarð í morgun.

Meduza segir að fimm sprengingar hafi heyrst í Kænugarði í morgun og hafi svartan reyk lagt frá nokkrum byggingum. 

Íbúar Kænugarðs njóta aðhlynningar eftir árásir morgunsins.AP

Þá segir Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, segir að ráðist hafi verið á „mikilvæga innviði“ í höfuðborginni og að ein sprengjuárásin beinst að leikvelli í miðborginni. 

Íbúar Kænugarðs hafa verið hvattir til að leita skjóls í varnarbyrgjum, meðal annars neðanjarðarlestarstöðvum, en búið er að stöðva umferð um „rauðu neðanjarðarlestarlínuna“.

Loftvarnarflautur hafa ómað víðs vegar um Úkraínu í morgun, en fréttir hafa borist af sprengjuárásum meðal annars í borgunum Kharkív, Zhytomyr, Khmelnitsky, Dnipro, Ternopil og Lviv í vesturhluta Úkraínu.

Talið er að Rússar séu með árásunum að bregðast við árásinni á Kerch-brúna um helgina, en brúin tengir meginland Rússland við Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014. Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur lýst árásinni á brúna sem „hryðjuverki“.

Stjórnvöld í Rússlandi hafa enn ekki tjáð sig um árásirnar á úkraínsku borgirnar í morgun.


Tengdar fréttir

Sprengingar í hjarta Kænugarðs og víðar um Úkraínu

Sprengingar skóku Kænugarð í morgun, í fyrstu eldflaugaárás Rússa á höfuðborgina í nokkrar vikur. Blaðamaður Financial Times segir sprengjur hafa lent í hjarta borgarinnar, meðal annars á stórum gatnamót nærri Shevchenko-garði, þegar margir voru á ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×