Innlent

Hafði lögguna undir sem sagðist viss um að hann hefði verið í símanum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögregla sagði ökumanninn hafa verið að tala í símann undir stýri.
Lögregla sagði ökumanninn hafa verið að tala í símann undir stýri. Getty

Karlmaður sem sakaður var um að hafa talað í símann við akstur hafði lögreglu undir í héraðsdómi sem kveðinn var upp fyrir helgi. Lögreglunni tókst ekki að sýna fram á að hann hafi notað símann við akstur, gegn eindreginni neitun ökumannsins, og var hann því sýknaður.

Maðurinn var nýlega búinn að aka fram hjá lögreglustöðinni við Flatahraun þegar hann sá lögreglubíl með blá ljós nálgast. Hann stöðvaði bílinn úti í vegkanti og upp að honum gekk lögreglumaður, sem tjáði ökumanninum að hann hafi verið að tala í símann undir stýri.

Þessu neitaði ökumaðurinn eindregið. Hann bauð lögreglu að skoða símann og fletti upp nýlegum símtölum til að sýna fram á sakleysi sitt. Lögreglumenn höfðu ekki áhuga á því að skoða símann en bentu honum á að leita á lögreglustöð – eftir að hafa sektað hann.

Einu sönnunargögn lögreglu var vitnisburður lögreglumannanna sem stöðvuðu ökumanninn. Þeir sögðust hafa séð hann tala í símann en aðspurðir kváðu þeir nánari upplýsingar almennt ekki þurfa að liggja fyrir í tilvikum sem þessum, eins og það er orðað í héraðsdómi. Þeir hafi því ekki þurft að skoða símann sérstaklega, þó ökumaðurinn hafi boðið þeim það.

Héraðsdómari kvað enga eiginlega rannsókn hafa farið fram hjá lögreglu í málinu. Fyrir dómi lagði ökumaðurinn fram gögnin sem lögregla hafði ekki áhuga á að skoða þegar hann var stöðvaður. Ákæruvaldið þurfti að bera hallann af sönnunarskortinum og var ökumaðurinn því sýknaður. Ríkissjóði ber að greiða sakarkostnað mannsins - upp á 300 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×