Real Madrid átti í vandræðum þegar liðið sótti úkraínska liðið Shakhtar Donetsk heim í gærkvöld, að vísu til Varsjá í Póllandi, þar sem Evrópuleikir mega ekki fara fram í Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Oleksandr Zubkov Shakhtar í forystu á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og staðan var 1-0 allt þar til fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Þá átti Þjóðverjinn Toni Kroos háa sendingu inn á teig Shakhtar sem fann höfuðið á landa hans Rüdiger sem skallaði boltann í stöng og inn og lenti svo harkalega saman við Anatolii Trubin, markvörð Shakhtar.
Rüdiger steinlá og það sást fossblæða úr andliti hans. Hann átti þá erfitt með að halda jafnvægi þegar hann stóð upp eftir markið. Haft er eftir Rüdiger og talsmanni Real Madrid að hann sé í lagi og hafi sloppið við beinbrot. Það þurfti hins vegar að sauma 20 spor í andlitið á honum eftir atvikið.
„Það sem drepur þig ekki styrkir þig. Ég er í lagi, takk fyrir öll skilaboðin,“ sagði Rüdiger eftir leik.
Um er að ræða fyrstu stigin sem Real Madrid tapar í F-riðli en liðið er efst í riðlinum með 10 stig eftir fjóra leiki og er öruggt áfram í 16-liða úrslit. RB Leipzig vann Celtic í gær og er með sex stig í öðru sæti en Shakhtar er með fimm stig þar fyrir neðan. Celtic rekur lestina með eitt stig.
Myndir af atvikinu má sjá að neðan. Að ofan má sjá myndskeið af markinu.





