Greint er frá þessu á vef Ríkisendurskoðunar, en skýrslunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu eftir að tilkynnt var um að ráðist yrði í gerð hennar. Skýrslan ber heitið „Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022“.
Ríkisendurskoðun áréttar á heimasíðu sinni að trúnaður gildir um umsagnardrög skýrslunnar, sem teljist vinnuskjal í skilningi laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
„Um skýrsludrögin verður því ekki fjallað efnislega í umsagnarferlinu, hvorki af hálfu Ríkisendurskoðunar né umsagnaraðila,“ segir á vef embættisins.
Óskaði eftir gerð skýrslunnar 7. apríl
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir því þann 7. apríl síðastliðinn að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort sala á 22 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Degi síðar var svo greint frá því í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun að stofnunin myndi verða við beiðni ráðherra um úttekt. Var þá sagt að niðurstöður úttektarinnar yrðu birtar í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði. Verulegar tafir urðu á því þar sem ríkisendurskoðandi sagði verkið hafa reynst mun umfangsmeira ef fyrirfram var gert ráð fyrir. Þá hafi Covid og sumarfrí starfsmanna embættisins sett strik í reikninginn.
Ríkissendurskoðandi sagði í samtali við fréttastofu í byrjun síðasta mánaðar að hann sagðist vita að skýrslan muni „vekja athygli og fá umtal.“