Fótbolti

Fullir áhorfendur á HM í Katar sendir á sér svæði til að láta renna af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er oft mikið stuð á stuðningsmönnum enska landsliðsins á stórmótum sem þessum.
Það er oft mikið stuð á stuðningsmönnum enska landsliðsins á stórmótum sem þessum. Getty/Marc Atkins

Hæstráðandi Katar á komandi heimsmeistaramóti í fótbolta segir að Katarbúar ætli að leysa vandamálið með ölvaða áhorfendur með því að færa þá í burtu og inn á sér svæði.

Áfengissala í Katar mun færast frá hótelbörum og inn á stuðningsmannasvæðin og fyrir utan leikvangina á meðan heimsmeistarakeppnin stendur yfir frá 20. nóvember til 18. desember.

Katar er múslimaríki sem bannar drykkju á almannafæri en menn þar vilja forðast handtökur eða fangelsisdóma hífaða stuðningsmanna með því að leysa það á þennan hátt.

„Það eru plön í gangi um að fólki geti látið renna af sér á ákveðnum stað ef það hefur drukkið of mikið. Það verður staður sem þau geta verið fullviss um að vera örugg og að þau skaði ekki hvort annað,“ sagði Nasser Al Khater sem er yfirmaður HM í Katar.

Það fylgir sögunni að viðkomandi áhorfendur þurfi að dúsa í tjaldinu þar til að þeir eru orðnir nægilega skýrir í hausnum en að þeir fái jafnframt aðeins viðvörun.

Al Khater segir líka að samkynhneigðir áhorfendur megi haldast í hendur og það verði engin mismunun gegn þeim að því leiti. Það er bannað samkvæmt lögum í Katar að vera samkynhneigður.

„Það eina sem við biðjum um er að fólk sýni menningu okkar virðingu. Þetta snýst um að það svo framarlega sem þú gerir ekkert til að skaða aðra eða eyðileggur ekki hluti þá ertu velkominn og þarft ekki að hafa áhyggjur af neinu,“ sagði Al Khater.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×