Erlent

Ungt par meðal látnu í Kænugarði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið að björgunarstörfum í Kænugarði.
Unnið að björgunarstörfum í Kænugarði. AP/Roman Hrytsyna

Að minnsta kosti þrír létu lífið og þrír særðust í drónaárásum Rússa á Kænugarð í morgun. Nítján var bjargað úr rústum íbúðabyggingar en björgunaraðgerðir standa yfir. Fleiri árásir áttu sér stað í Úkraínu í morgun en heildarfjöldi látinna liggur ekki fyrir.

Meðal látnu í Kænugarði voru ungt par og var konan komin sex mánuði á leið.

Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, sagði í morgun að skotmörk Rússa í árásum morgunsins hefðu verið almennir borgarar og orkuinnviðir. Fjöldi almennra borgara væru án rafmagns eftir árásirnar en unnið væri að viðgerðum.

Shmyhal kallaði eftir auknum stuðningi frá bandamönnum Úkraínu. Þá sagði Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Vólódómírs Selenskís Úkraínuforseta, að reka ætti Rússa úr G20.

Íranir ítrekuðu í morgun þá fullyrðingu sína að þeir hefðu ekki selt Rússum dróna til notkunar í Úkraínu. Um væri að ræða falsfréttir Vesturlanda, sagði talsmaður utanríkisráðuneytisins. Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, sagði aðkomu Írana að átökunum til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×