Fótbolti

„Ó­mögu­legt fyrir mark­verði að vinna Gull­boltann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vinna Yashin verðlaunin fór Thibaut Courtois svekktur heim af Gullboltahátíðinni í gær.
Þrátt fyrir að vinna Yashin verðlaunin fór Thibaut Courtois svekktur heim af Gullboltahátíðinni í gær. getty/Aurelien Meunier

Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid og belgíska landsliðsins, segir að það sé ómögulegt fyrir menn í hans stöðu að vinna Gullboltann.

Samherji Courtois hjá Real Madrid, Karim Benzema, vann Gullboltann í fyrsta sinn á ferlinum í gær. Courtois endaði hins vegar í 7. sæti í kjörinu, eitthvað sem hann á erfitt með að sætta sig við.

Courtois átti frábært tímabil með Real Madrid í fyrra. Hann varð Spánar- og Evrópumeistari með liðinu og var valinn maður leiksins í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Real Madrid sigraði Liverpool, 1-0.

„Ég er mjög ánægður fyrir hönd Karims Benzema. Ég er ekki að segja að ég hefði átt að vinna þetta en ég komst ekki einu sinni á verðlaunapall þrátt fyrir að vera markvörðurinn í liðinu sem vann spænsku deildina og Meistaradeildina,“ sagði Courtois eftir verðlaunaathöfnina í París í gær.

„Það virðist vera betra að skora mark en að koma í veg fyrir það. Þetta er barátta sem við getum ekki unnið. Þegar ég horfði á þetta og vitandi hvernig þeir kjósa vissi ég að ég ætti ekki möguleika á að vinna þetta. Það er ómögulegt að vinna þessi verðlaun. Ég veit ekki hvort markvörður getur gert meira en ég gerði á síðasta tímabili.“

Courtois hefur ýmislegt til síns máls því aðeins einn markvörður hefur unnið Gullboltann síðan hann var veittur í fyrsta sinn 1956. Lev Yashin vann Gullboltann 1963. Verðlaunin fyrir markvörð ársins eru nefnd í höfuðið á honum og Courtois fór heim með þau að þessu sinni.

Sadio Mané endaði í 2. sæti í kjörinu í ár og Kevin De Bruyne í því þriðja. Tveir aðrir leikmenn Real Madrid fyrir utan Benzema og Courtois voru á meðal tíu efstu í kjörinu. Vinícius Júnior, sem skoraði sigurmark Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Liverpool, var í 8. sæti og Luka Modric í því níunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×