Fótbolti

Jota missir af HM: „Sorgarfréttir fyrir strákinn, okkur og Portúgal“

Sindri Sverrisson skrifar
Diogo Jota var borinn af velli í lokin á leiknum við Manchester City.
Diogo Jota var borinn af velli í lokin á leiknum við Manchester City. Getty

Nú er orðið ljóst að portúgalski sóknarmaðurinn Diogo Jota missir af heimsmeistaramótinu í fótbolta sem hefst í Katar í næsta mánuði.

Meiðsli Jota vörpuðu dökkum skugga á frækinn 1-0 sigur Liverpool gegn Manchester City á sunnudaginn. Hann var borinn af velli í uppbótartíma og eftir læknisskoðun er nú komið í ljós að meiðslin eru býsna alvarleg.

„Ekki góðar fréttir varðandi Diogo. Já, hann missir af HM. Þetta eru nokkuð alvarleg kálfameiðsli. Sorgarfréttir fyrir strákinn, okkur og Portúgal,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag fyrir leikinn við West Ham annað kvöld.

Áfallið er sérstaklega mikið fyrir Jota sem var tiltölulega nýkominn á ferðina eftir að hafa misst af byrjun tímabilsins vegna meiðsla í læri.

Meiðslin eru einnig enn meira áfall fyrir Liverpool í ljósi meiðslastöðunnar hjá félaginu en aðeins rúm vika er síðan að Luis Diaz meiddist í hné gegn Arsenal. Diaz verður líkt og Jota frá keppni fram yfir HM-hléið, sem hefst um miðjan nóvember og stendur yfir til jóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×