Innlent

Fjöl­menn lög­reglu­að­gerð í Svarfaðar­dal í gær­kvöldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn var í beinni útsendingu á Facebook og sýndi lögreglubíla fyrir utan bæinn sinn. Rúður á heimili karlmannsins voru brotnar.
Karlmaðurinn var í beinni útsendingu á Facebook og sýndi lögreglubíla fyrir utan bæinn sinn. Rúður á heimili karlmannsins voru brotnar.

Fjölmennt lið lögreglu var kallað út að bæ í Svarfaðardal á Norðurlandi í gærkvöldi vegna karlmanns á fimmtugsaldri. Vegur sem liggur að heimili karlmannsins var lokaður um tíma svo nærsveitungar komust ekki heim til sín.

Karlmaðurinn, sem á meðal annars þungan dóm á bakinu fyrir manndráp þegar hann var tæplega tvítugur, fór mikinn á samfélagsmiðlum í gær á meðan lögregla stóð vakt við húsið. Hann var í beinni útsendingu á Facebook í á þriðja klukkutíma.

Lögregla reyndi lengi vel að ræða við hann á vettvangi. Þá reyndi lögreglumaður einnig að ná til karlmannsins í gegnum samfélagsmiðla og sagðist vilja hjálpa honum. Auk hefðbundinna lögreglumanna voru vopnaðir sérsveitarmenn með í för.

Nágranni sem fréttastofa ræddi við segir karlmanninn „lifa öðruvísi lífi“ en það væri þó ekki svo að þau væru hrædd við hann. Hann væri á móti kerfinu og hefði farið mikinn þegar landinn var bólusettur fyrir Covid-19. Þá deili hann reglulega samsæriskenningum á Facebook.

Hann hafi þó reglulega sýnt að hann væri góður til vinnu, reynst öflugur á bæ sínum og tekið að sér verk fyrir annað fólk. Því væri leiðinlegt að sjá ástandið sem hafi skapast við bæinn sem hann leigir og býr á í gær.

Lögreglan á Norðurlandi eystra vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í gær. Ekki hefur náðst í lögregluna það sem af er degi. Ríkislögreglustjóri vísar á embættið fyrir norðan vegna málsins.

Uppfært 21.10.2022 Lögreglan á Norðurlandi eystra segist ekki ætla að tjá sig um aðgerðina í Svarfaðardal og vísar til einkahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×