Bærinn er í Donetsk héraði og fyrir innrás Rússa bjuggu þar um sjötíu þúsund manns.
Síðustu mánuði hafa Rússar lagt ofuráherslu á að ná bænum á sitt vald. Sérfræðingar segja að það yrði ákveðinn pólitískur sigur fyrir Rússa að ná bænum en í daglegri ræðu sinni í nótt sagði Úkraínuforseti að í þeim tilraunum sýni rússnesku herforingjarnir glögglega brjálæði sitt.
Dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, senda þeir unga menn í opinn dauðann í örvæntingarfullri tilraun til að ná bænum og láta sprengjum rigna á hann í leiðinni.
Bakhmut er á leiðinni að borgunum Sloviansk og Kramatorsk sem einnig er á valdi Úkraínu og þótt bærinn hafi lítið hernaðarlegt gildi gætu Rússar komið stórskotaliði sínu fyrir í bænum sem gæti síðan skotið sprengjum á borgirnar tvær.
Selenskí sagði í ræðu sinni að varnarlið bæjarins ætli sér ekki að hörfa um tommu og kallaði hann hermennina þar hetjur.