Fótbolti

Leikmaður Real Madrid skaut boltanum upp á svalir í nálægri blokk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heppnir íbúar nálægt heimavelli Rayo Vallecano fengu bolta eftir að Federico Velvarde skaut honum á svalirnar hjá þeim.
Heppnir íbúar nálægt heimavelli Rayo Vallecano fengu bolta eftir að Federico Velvarde skaut honum á svalirnar hjá þeim. vísir/getty

Íbúar í blokk við heimavöll Rayo Vallecano sáu liðið ekki bara vinna Spánar- og Evrópumeistara Real Madrid í gær heldur fengu einnig minjagrip um sigurinn.

Santi Comesana, Alvaro Rivera og Oscar Trejo skoruðu mörk Vallecano sem vann 3-2 sigur og varð þar með fyrsta liðið til að vinna Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni.

Heimavöllur Vallecano, Estadio de Vallecas, er frekar smár og tekur aðeins um fjórtán þúsund áhorfendur í sæti. Fyrir aftan annað markið eru reyndar íbúðir þar sem heppnir íbúar geta fylgst með leikjum Vallecano.

Federico Velvarde hefur verið í miklum markaham með Real Madrid í vetur en miðið var ekki alveg nógu vel stillt í gær. Undir lok leiks, þegar Madrídingar freistuðu þess að jafna, átti Úrúgvæinn skot sem fór svo hátt yfir að það endaði á svölunum í nálægri blokk eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Íbúarnir sem höfðu hópast saman á svölunum til að fylgjast með leiknum voru skiljanlega í skýjunum með að fá minjagrip um þennan merka leik.

Luka Modric og Eder Militao skoruðu mörk Real Madrid í leiknum í gær. Liðið er í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 32 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×