Fótbolti

Skoraði eftir langa glímu við andlega erfiðleika

Sindri Sverrisson skrifar
Josip Ilicic sýndi gamla og góða takta og fagnaði marki í fyrsta leiknum eftir endurkomuna heim til Maribor.
Josip Ilicic sýndi gamla og góða takta og fagnaði marki í fyrsta leiknum eftir endurkomuna heim til Maribor. @nkmaribor

Slóvenski landsliðsframherjinn Josip Ilicic reimaði á sig takkaskóna á mánudagskvöld og skoraði í fyrsta leik sínum síðan í maí, eftir að hafa átt við andlega erfiðleika að stríða.

Ilicic, sem er 34 ára, er kunnur markahrókur úr ítölsku A-deildinni en þar raðaði hann minn mörkum fyrir Palermo, Fiorentina og síðast Atalanta.

Andlegir erfiðleikar héldu honum hins vegar frá keppni á síðustu misserunum í Atalanta. Fyrrverandi liðsfélagi Ilicic, Papu Gomez, sagði árið 2020 að Ilicic hefði glímt við þunglyndi eftir að hafa greinst með Covid-19.

Í janúar á þessu ári sagði Gian Piero Gasperini, stjóri Atalanta: „Við höfum þekkt hann í mörg ár og átt margar gleðilegar stundir saman. Ég get sagt að hann er mjög venjulegur, jákvæður maður en hugarheimur okkar er eins og frumskógur. Það er erfitt fyrir sálfræðinga að greina hvað er í gangi, hvað þá fyrir okkur.“

Ilicic lék aðeins tvo deildarleiki fyrir Atalanta á árinu 2022 og í september komst hann að samkomulagi við félagið um að rifta samningi, sneri heim til Slóveníu og gekk í raðir Maribor á nýjan leik.

Ilicic kom svo inn á í sínum fyrsta leik í tólf ár fyrir Maribor þegar liðið vann Mura í fyrrakvöld, og skoraði lokamarkið í 5-1 sigri úr vítaspyrnu sem hann krækti í sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×