Fótbolti

Corona missir af HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesus „Tecatito“ Corona er ekki búinn að ná sér af meiðslunum og spilar ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.
Jesus „Tecatito“ Corona er ekki búinn að ná sér af meiðslunum og spilar ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Getty/Jose Breton

Mexíkó verður án öflugs leikmanns á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar. Kantmaðurinn Jesus „Tecatito“ Corona missir af mótinu vegna meiðsla.

Corona átti veika von um að ná heimsmeistaramótinu en mexíkanska knattspyrnusambandið staðfesti það í gær að hann verði ekki með.

Corona er kantmaður Sevilla en hann meiddist illa á fæti á æfingu á undirbúningstímabilinu í ágúst.

Corona fótbrotnaði og skemmdi liðbönd í vinstri ökkla. Stuttu eftir meiðslin tilkynnti spænska liðið að hann yrði frá í fjóra til fimm mánuði.

Gerardo „Tata“ Martino, þjálfari Mexíkó, vildi ekki gefa upp vonina um að þessi lykilmaður liðsins myndi ná sér í tíma fyrir keppnina og Corona var í 31 manns hópnum sem var valinn fyrir tveimur vikum.

Martino sagði frá því að blaðamannafundi að leikmaðurinn sjálfur hafði sagt honum að hann ætti ekki möguleika á því að berjast fyrir sæti í HM-hópnum.

Hinn 29 ára gamli Corona hefur skorað 10 mörk í 71 landsleik fyrir Mexíkó frá því að hann lék sinn fyrsta landsleik 2014.

Það er líka óvissa með framherjann Raul Jimenez hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Wolves. Hann hefur ekki spilað fyrir Úlfanna síðan hann meiddist á nára í ágúst en er byrjaður að æfa á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×