Fótbolti

Inter í Meistara­deildar­sæti eftir stór­sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir voru á skotskónum í kvöld.
Þessir tveir voru á skotskónum í kvöld. Alessandro Sabattini/Getty Images

Alls fóru fimm leikir fram í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta, fram í kvöld. Inter Milan vann 6-1 stórsigur á Bologna á meðan Þórir Jóhann Helgason horfði á liðsfélaga sína í Lecce vinna óvæntan 2-1 sigur á Atalanta og Rómverjarnir hans José Mourinho misstigu sig gegn Sassuolo.

Það hljómar ef til vill undarlega en Charalampos Lykogiannis komst yfir á San Siro í Mílanóborg í kvöld. Það entist þó ekki lengi og gamla brýnið Edin Džeko hafði jafnað metin aðeins fjórum mínútum síðar.

Federico Dimarco kom Inter svo í 2-1 áður en Lautaro Martínez tvöfaldaði forystuna á 42. mínútu, staðan 3-1 í hálfleik. Í þeim síðari bætti Dimarco við öðru marki sínu og Hakan Çalhanoğlu kom heimamönnum í 5-1 með marki úr vítaspyrnu.

Varamaðurinn Robin Gosens bætti við sjötta markinu þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en Inter létu staðar numið þar og lauk leiknum með 6-1 sigri þeirra.

Rómverjar sóttu Sassuolo heim í jöfnum leik. Tammy Abraham braut ísinn fyrir gestina þegar aðeins tíu mínútur voru til leiksloka en hann hafði byrjað leikinn á varamannabekknum. Allt kom þó fyrir ekki en Andrea Pinamonti jafnaði metin í 1-1 aðeins fimm mínútum síðar og þar við sat.

Þórir Jóhann þurfti að sætta sig við að verma bekkinn er lið hans Lecce vann mjög óvæntan 2-1 sigur á Atalanta. Lecce, sem eru nýliðar, voru þarna að vinna sinn fyrsta heimaleik á leiktíðinni en þetta var aðeins annar sigurleikur liðsins. Á sama tíma er Atalanta í bullandi baráttu um Meistaradeildarsæti.

Önnur úrslit

Fiorentina 2-1 Salernitana

Torino 2-0 Sampdoria

Inter fer með sigri kvöldsins upp fyrir Atalanta á markatölu en bæði lið eru með 27 stig í 4. og 5. sæti. Þar fyrir neðan kemur Roma með 26 stig á meðan Lecce er í 16. sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×