Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og fulltrúar frá Útlendingastofnun mættu fyrir allsherjar-og menntamálanefnd Alþingis í morgun til að svara fyrir ákvörðun um fjöldabrottvísun til Grikklands sem fram fór í síðustu viku.
„Ég undrast svolítið hversu litlar upplýsingar stjórnvöld hafa í höndunum, þá tölulegar upplýsingar. Það virðist sem að yfirsýn sé takmörkuð og möguleikar ráðuneytis og stofnana til þess að hafa heildaryfirsýn séu af skornum skammti. Það er auðvitað líka vont upp á okkar samstarf við alþjóðlegar stofnanir og eftirlitsaðila.“
Helga Vala segir fleiri dæmi um þetta.
„Ég hitti nefnd frá Evrópuráðinu í gær sem er að fjalla um mansal og þar kom meðal annars fram þetta, skortur á utan um haldi á gögnum og tölulegum upplýsingum. Ég held við megum gera betur í því. Það er auðvitað á grundvelli staðreynda sem við verðum að vinna, ekki einhverri tilfinningu.“
Það er ekki bara verklag við brottvísun sem hefur verið gagnrýnt heldur líka framkvæmdin í sjálfu sér; endursendingar til Grikklands.
„Við, auðvitað, höfum verið að benda á það að Evrópuríkin eru sáralítið að endursenda til Grikklands, bara mjög lítið. Það eru innan við hundrað endursendingar á fyrri hluta þessa árs frá öllum Evrópuríkjunum en þess ber að geta að Ísland hefur ekki sent inn sínar tölur yfir endursendingar til Grikklands á þessu ári. Við ætluðum í síðustu viku að senda út í einni ferð 23 þannig að við hefðum auðvitað orðið Evrópumeistarar í endursendingum til Grikklands ef það hefði tekist en vermum þess í stað annað sætið.“
Helga Vala segir nefndin verði að fá dómsmálaráðherra aftur fyrir nefndina til að fá svör við fleiri spurningum. „Við verðum bara áfram í rannsókn.“