Fótbolti

Lagði landsliðsskóna á hilluna í febrúar en er á leiðinni á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hakim Ziyech verður með Marokkó á HM þrátt fyrir að hafa lagt landsliðsskóna á hilluna fyrr á árinu.
Hakim Ziyech verður með Marokkó á HM þrátt fyrir að hafa lagt landsliðsskóna á hilluna fyrr á árinu. Fran Santiago/Getty Images

Hakim Ziyech var fyrr í kvöld valinn í marokkóska landsliðshópinn sem fer á heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem hefst eftir rúma viku.

Það að Ziyech sé valinn í marokkóska knattspynulandsliðið er kannski ekki eitthvað sem kemur fólki á óvart, nema fyrir þær sakir að leikmaðurinn lagði landsliðsskóna á hilluna í febrúar síðastliðnum.

Ziyech hefur ekki alltaf átt í góðu sambandi við marokkóska landsliðið. Hann og Vahid Halihodzic, fyrrverandi þjálfari liðsins, voru vægast sagt ekki perluvinir og sá síðarnefndi talaði um að hegðun Ziyech væri ekki landsliðsmanni sæmandi.

Ziyech var svo í kjölfarið ekki valinn í hópinn sem fór á Afríkumótið í janúar á þessu ári og nú í febrúar gaf hann það út að hans landsliðsferli væri lokið.

Nú er Halihodzic hins vegar ekki lengur við stjórnvölin og Walid Regragui er tekinn við sem þjálfari marokkóska landsliðsins. Hann valdi Ziyech í hópinn og þessi 29 ára leikmaður Chelsea er því á leið á HM.

Ziyech hefur aðeins komið við sögu í átta leikjum fyrir Chelsea á tímabilinu og þar af hefur hann aðeins verið í byrjunarliðinu í tvígang. Eftir að hafa heillað heimsbyggðina með flottri spilamennsku hjá Ajax hefur leikmaðurinn aðeins skorað sex mörk í 50 deildarleikjum fyrir Lundúnaliðið.

Hann hefur leikið 42 leiki fyrir marokkóska landsliðið í knattspyrnu og skorað í þeim 17 mörk, sem gerir hann að sjötta markahæsta leikmanni liðsins frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×