„Ég skal alveg viðurkenna það að það var skrýtin tilfinning að mæta hér í húsið á Selfossi sem andstæðingur liðsins. Það var hins vegar gaman að hitta fjölskyldu mína, fyrrverandi samherja og vini fyrir leikinn og sjá kunnugleg andlit í stúkunni fyrir leik," sagði Hergeir í samtali við Vísi.
„Við mættum sterkir til leiks og náðum loksins stöðugri spilamennsku allan leikinn, eitthvað sem við höfum stefnt að frá upphafi keppnistímabilsins. Við erum að slípa okkur betur og betur saman og nú þurfum við að ná stöðugleika og tengja saman góðar frammistöður," sagði leikstjórnandinn sem skoraði sex mörk í leiknum.
Hergeir nefndi kunnuglegt stef aðspurður um hvað hann var sáttastur við í spilamennsku Stjörnuliðsins í kvöld: „Það bara gamla góða klisjan, vörn og markvarsla. Adam var flottur í markinu og við náðum upp sterkri vörn sem skilaði auðveludm mörkum," sagði hann.